Lokahola rannsóknar- áætlunar boruð á Hafnarsandi

Vinnuflokkur Vatnsborun ehf. er nú að ljúka borun síðustu rannsóknarholunnar í núverandi áætlun á Hafnarsandi. Holan hefur hlotið heitið VA-09, og samkvæmt borstjóra er þar talsvert vatn að finna.

„Holan er komin niður á 70 metra dýpi og vatnsyfirborðið mælist við 58,5 metra,“ segir Hannes Örn Ólafsson hjá Vatnsborun ehf.

Rannsóknarboranirnar á Hafnarsandi miða að því að safna nákvæmum jarðfræðilegum gögnum og skapa aðstæður til vöktunar á grunnvatni, m.a. grunnvatnshæð og öðrum eðlis- og efnaeiginleikum vatnsins.

Þau Sverrir Óskar Elefsen og Elísabet Ásta Eyþórsdóttir sem er jarðfræðingurinn í þessu borverki hafa haft umsjón með framkvæmdum fyrir höndi COWI og segja þau markmið verkefnisins vera skýrt:

„Við viljum tryggja sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar á Hafnarsandi. Til þess þarf að bora eftirlitsholur sem gefa okkur upplýsingar um heildardýpi vatnsleiðandi jarðlaga. Talið er að botn kerfisins sé setlag í um 130 metra dýpi, næst Suðurstrandarvegi. Það hefur þó verið misjafnlega auðvelt að ná niður á setlagið og því telst borun lokið þegar náð er niður á hart berg, sem liggur undir setinu og hefur mjög litla vökvaleiðni.“

Við boranirnar hafa einnig fundist fjölmörg gjalllög með umtalsverðu magni gleragna, sem gefa frekari upplýsingar um uppbyggingu efri jarðlaga svæðisins.

„Með nákvæmri skráningu jarðfræðinnar og eiginleikum grunnvatns – bæði magninu og rennslinu – skapast traustur grunnur fyrir ábyrgri nýtingu þessarar mikilvægu auðlindar,“ bæta þau Sverrir og Elísabet við.