Borun vegna vöktunar grunnvatns heldur áfram á Hafnarsandi. Verkefnið er unnið af Vatnsborun ehf. fyrir hönd Hydros Ölfus ehf. og markar mikilvægt skref í sjálfbærri nýtingu vatnsauðlinda í nágrenni Þorlákshafnar.
„Við kláruðum fyrstu holuna á dögunum og erum nú komin niður á 42 metra í næstu holu,“ segir Hannes Örn Ólafsson borstjóri hjá Vatnsborun ehf. „Við byrjum á forborun niður í 30 metra til að koma 10″ fóðringunni sem lengst niður, áður en við höldum áfram með raufaðri fóðringu. Þetta tryggir að við náum niður á það dýpi sem við þurfum.“
Borunin er hluti af víðtæku vöktunar- og gagnasöfnunarverkefni Hydros Ölfus ehf. sem miðar að því að tryggja örugga og ábyrga nýtingu grunnvatns og jarðsjós á svæðinu. Heildaráætlunin felur í sér borun fimm vöktunarhola og uppsetningu á vöktunarkerfum til að fylgjast með áhrifum vatnstöku á náttúrulegt vatnsflæði.
Nánar um verkefnið á www.hydros.is
