Drög að nýjum lögum um stjórn vatnamála kynnt til samráðs

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur kynnt til samráðs drög að frumvarpi til laga um stjórn vatnamála, sem fela í sér heildarendurskoðun á gildandi löggjöf á þessu sviði. Frumvarpið er nú aðgengilegt í samráðsgátt stjórnvalda og er opið fyrir umsagnir til og með 26. janúar 2026.

Markmið frumvarpsins er að tryggja heildstæða vernd vatns og vatnavistkerfa, bæði yfirborðsvatns og grunnvatns, og stuðla að sjálfbærri og langtímamiðaðri nýtingu vatnsauðlindarinnar. Lögin miða jafnframt að því að koma í veg fyrir hnignun á ástandi vatnavistkerfa og bæta ástand þeirra þar sem þess er þörf.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á skýrari umhverfismarkmið, auknar kröfur til málsmeðferðar og skýrari verkaskiptingu stjórnvalda. Gert er ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun gegni miðlægu hlutverki við framkvæmd laganna, meðal annars við gerð vatnaáætlunar og aðgerða- og vöktunaráætlana, í víðtæku samráði við stofnanir, hagaðila og félagasamtök.

Hydros ehf. hvetur hagsmunaaðila til að kynna sér frumvarpsdrögin og taka þátt í samráðsferlinu, enda mun löggjöfin hafa áhrif á framtíðarnýtingu og stjórnun vatnsauðlinda hér á landi.

Nánari upplýsingar og aðgang að frumvarpinu má finna í samráðsgátt stjórnvalda á island.is:
https://island.is/samradsgatt/mal/4139